Beint á leiðarkerfi vefsins

Stefna um ábyrgar fjárfestingar

1. Inngangur
Stefna þessi um ábyrgar fjárfestingar setur fram viðmið Lífeyrissjóðs bankamanna í samræmi við 36. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða þar sem kveðið er á um að lífeyrissjóður skuli setja sér siðferðisleg viðmið í fjárfestingum.

Með ábyrgum fjárfestingum er átt við að litið sé til umhverfismála, mannréttinda, samfélagsmála og stjórnarhátta við fjárfestingarákvarðanir. Lífeyrissjóður bankamanna lætur þessi málefni sig varða og byggja viðhorf sjóðsins á grunngildum íslenska ríkisins, sem meðal annars birtast í ákvæðum stjórnarskrár og almennra laga.

Stefna þessi um ábyrgar fjárfestingar tekur einkum til beinna fjárfestinga sjóðsins í skráðum fyrirtækjum og sjóðum (að undanskildum vísitölusjóðum) sem fjárfesta aðallega í hlutabréfum, s.s. verðbréfasjóðum, fjárfestingarsjóðum og öðrum sjóðum um sameiginlega fjárfestingu. Mögulegt er að líta til grundvallarsjónarmiða stefnunnar við aðrar fjárfestingar eftir því sem við á. Nánar er fjallað um beitingu stefnunnar gagnvart fjárfestingum í gr. 4.

Lífeyrissjóður bankamanna er tiltölulega lítill fjárfestir auk þess sem stærstur hluti fjárfestinga sjóðsins í hlutafélögum er óbeinn í gegnum sjóði um sameiginlega fjárfestingu.  Af þessum sökum hefur sjóðurinn takmarkaða möguleika til þess að beita sér með beinum hætti gagnvart einstökum fyrirtækjum, nema í þeim tilfellum þegar stærð beins eignarhlutar gefur tilefni til þess. Á þetta sérstaklega við um erlendar fjárfestingar þar sem stærð sjóðsins er hlutfallslega mjög lítil og fjárfestingar eru að jafnaði nær alfarið í sjóðum en ekki í einstökum fyrirtækjum.

2. Markmið
Lífeyrissjóður bankamanna hefur það höfuðmarkmið að ávaxta eignir sjóðsins til að standa undir lífeyrisskuldbindingum og hámarka réttindi sjóðfélaga. Skal ávöxtun eigna hagað með þeim hætti að samspil ávöxtunar og áhættu sé sem hagkvæmast samræmi við fjárfestingarstefnu og áhættustefnu sjóðsins á hverjum tíma.

Stefnu þessari um ábyrgar fjárfestingar er ætlað að skilgreina viðmið sem gera lífeyrissjóðnum kleift að samþætta samfélagslega ábyrgð við fjárfestingarákvarðanir hans eftir því sem kostur er og styðja þannig við greiningu, samanburð og mat á fjárfestingakostum. Er í því sambandi horft til umhverfismála, mannréttinda, samfélagsmála og stjórnarhátta og tillit tekið til þessara þátta eftir því sem fært er og að því marki sem rúmast innan fyrrgreinds höfuðmarkmiðs sjóðsins um hámörkun réttinda sjóðfélaga.  Það er mat stjórnar Lífeyrissjóðs bankamanna að samþætting samfélagslegrar ábyrgðar við fjárfestingarákvarðanir leiði jafnan til betri ákvörðunartöku og samrýmist því vel höfuðmarkmiði sjóðsins.

3. Framkvæmd
Framkvæmdastjóri annast framkvæmd stefnu um ábyrgar fjárfestingar í samráði við stjórn og áhættustjóra. Stefnan skal höfð til hliðsjónar við einstakar fjárfestingarákvarðanir lífeyrissjóðsins og eftirfylgni með þeim, ásamt því að vera til hliðsjónar við mótun og endurskoðun fjárfestingarstefnu og áhættustefnu sjóðsins.

4. Beiting stefnu við ábyrgar fjárfestinga
Sem fjárfestir mun Lífeyrissjóður bankamanna beita sér eftir því sem kostur er í þeim tilgangi að hafa uppbyggileg áhrif á háttsemi fyrirtækja og stuðla að langtímahagsmunum og sjálfbærni þeirra félaga sem sjóðurinn fjárfestir í enda telur hann slíkt samrýmast hagsmunum sjóðfélaga. Lífeyrisjóður bankamanna getur ákveðið að styðja aðgerðir annarra fjárfesta þegar atvik koma upp er snúa að þessum sviðum ásamt því að beita sér sjálfur ef eignarhald lífeyrissjóðsins í viðkomandi fyrirtæki gefur tilefni til, með það að markmiði að hafa áhrif á viðhorf og stefnu þeirra félaga sem sjóðurinn fjárfestir í.

Þegar um er að ræða fjárfestingar í sjóðum um sameiginlega fjárfestingu hefur Lífeyrissjóður bankamanna væntingar til þess að eignastýringaraðilar sem sjóðurinn er í viðskiptum við beiti sér eftir því sem við á með sambærilegum hætti gagnvart fjárfestingum sínum. Er kannað hvort eignastýringaraðilar sjóða hafi sett sér stefnu varðandi ábyrgar fjárfestingar áður en fjárfest er í viðkomandi sjóðum. Slík stefna er ekki skilyrði fjárfestingar í viðkomandi sjóði og fram fer mat á grundvelli heildarmarkmiða sjóðsins.

Þegar um er að ræða beinar fjárfestingar í félögum er m.a. horft til upplýsingagjafar fyrirtækja varðandi stjórnarhætti og atriði sem að þeim snúa á sviði umhverfismála og samfélagslegra málefna með áherslu á þau svið sem eru viðeigandi viðkomandi rekstri. Er þar einkum horft til upplýsingaskyldu skráðra fyrirtækja sbr. 66. gr. d. í lögum nr. 3/2006 um ársreikninga.

Tengist fyrirtæki broti á sviði umhverfismála og samfélagslegra málefna að áliti lögbærra yfirvalda er það markmið sjóðsins að beita sér sem eigandi þannig að gripið sé til viðeigandi ráðstafana í því skyni að tryggja að látið sé af viðkomandi háttsemi. Ef slíkar aðgerðir bera ekki fullnægjandi árangur mun sjóðurinn taka til skoðunar sölu viðkomandi eignarhlutar í heild eða að hluta og getur við viðvarandi eða ítrekuð brot útilokað einstakar fjárfestingar þar til fullnægjandi úrbætur hafa verið gerðar.

5. Endurskoðun og birting
Stefna þessi skal birt á heimasíðu sjóðsins og endurskoðuð árlega af stjórn og eftir því sem tilefni er til. 

Samþykkt á stjórnarfundi Lífeyrissjóðs bankamanna 28. nóvember 2017.


Lífeyrismál
Lánareiknivél
Launagreiðendavefur
Sjóðsfélagavefur

Hlutverk sjóðsins.

Lífeyrissjóður bankamanna hefur það hlutverk að sjá sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum fyrir lífeyri samkvæmt ákvæðum samþykkta sjóðsins. Lífeyrissjóðurinn er sjálfstæð  stofnun með eigin stjórn og undir opinberu eftirliti, eins og aðrir lífeyrissjóðir landsins. Deildir sjóðsins eru tvær, Hlutfallsdeild og Aldursdeild. Allir starfsmenn aðildarfyrirtækja sjóðsins, sem náð hafa 16 ára aldri, skulu vera sjóðfélagar og greiða iðgjöld til sjóðsins meðan þeir starfa hjá viðkomandi fyrirtæki.


Opnunartími

Opnunartími
Mán - fim: kl. 9:00 - 16:00
Föstudagar: kl. 9:00 - 15:00
Lífeyrissjóður bankamanna
Skipholti 50b, 105 Reykjavík
Skoða á korti >>

Toppmynd


Stjórnborð

Texti í sjálfgefinni stærð Texti í miðlungs stærð Texti í stórri stærð Hamur fyrir sjónskerta