24.03.2023

Landsréttur staðfestir dóm Héraðsdóms í máli Hlutfallsdeildar

Landsréttur kvað í dag upp dóm í máli Hlutfallsdeildar Lífeyrissjóðs bankamanna gegn aðildarfélögum og íslenska ríkinu. Var dómur Héraðsdóms Reykjavíkur staðfestur og aðildarfyrirtækin og íslenska ríkið sýknað af  kröfum sjóðsins.

Í september 2018 birti Lífeyrissjóður bankamanna aðildarfélögum Hlutfallsdeildar og íslenska ríkinu stefnu þar sem sjóðurinn taldi að samkomulag í tengslum við uppgjör ábyrgðar á skuldbindingum árið 1997 hafi verið ósanngjarnt, forsendur þess hafi brostið og stefndu auðgast með óréttmætum hætti á kostnað sjóðsins og sjóðfélaga. Var stefnan þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í október 2018.

Málatilbúnaður sjóðsins byggði einkum á því að veruleg frávik hafi orðið frá forsendum samkomulagsins og fjárhagsleg áhrif þessa verið verulega óhagstæð fyrir sjóðinn. Þessi forsendubrestur var staðfestur með matsgerð dómskvadds matsmanns sem mat umfang hans á um 5,4 milljarða króna m.v. lok árs 2015. Dómkröfur sjóðsins byggðu að verulegu leyti á þessari matsgerð og var gerð krafa um að samkomulaginu frá 1997 yrði breytt og viðbótargreiðsla að fjárhæð 5,4 milljarðar króna yrði innt af hendi. Auk þess var gerð krafa um að ábyrgð aðila á skuldbindingum deildarinnar verði endurvakin.

Þann 12. nóvember 2021 sýknaði Héraðsdómur Reykjavíkur aðildarfyrirtæki og íslenska ríkið af áðurnefndum kröfum sjóðsins.

Lífeyrissjóður bankamanna áfrýjaði málinu í kjölfarið til Landsréttar. Að mati lífeyrissjóðsins voru ýmsir ágallar á dómi héraðsdóms, m.a. hvernig dómurinn taldi það sanngjarnt að sjóðfélagar Hlutfallsdeildar þurfi að bera umtalsverða lækkun lífeyrisréttinda vegna þess að tryggingafræðilegar forsendur samkomulags um uppgjör ábyrgðar lífeyrisskuldbindinga stóðst ekki.

Sérstaklega kom á óvart að Héraðsdómur tiltók í forsendum dómsins að markaðsverð tiltekinna skuldabréfa í eigu Hlutfallsdeildar væri hærra en bókfært verð og dró þá röngu ályktun að staða deildarinnar væri því betri en af væri látið. Að mati sjóðsins var um grundvallarmisskilning að ræða varðandi, enda óumdeilt að bókhaldsleg meðferð verðbréfa hefur engin áhrif á tryggingafræðilega stöðu lífeyrissjóða, en sú staða segir til um getu lífeyrissjóðs til að standa undir lífeyrisgreiðslum, en um það snýst málið.

Í dómi Landsréttar var tekið undir þetta sjónarmið Lífeyrissjóðsins um að Héraðsdómur hefði farið villur vegar að þessu leyti og reyndar einnig varðandi raunávöxtunarviðmið.

Allt að einu, og að þessu gættu, staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu Héraðsdóms að staða aðila við gerð samkomulagsins frá 1997, efni samkomulagsins, atvik við samningsgerðina og síðari atvik réttlæti ekki að samkomulaginu verði breytt, auk þess að hafna kröfu um viðurkenningu á ábyrgð ríkisins vegna Landsbanka Íslands skv. 11. gr. laga um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands nr. 50/1997.

Stjórn Lífeyrissjóðs bankamanna mun í framhaldinu taka ákvörðun um mögulega áfrýjun til Hæstaréttar

Til baka í fréttir