Eftirlaun

Um eftirlaun

Eitt meginhlutverk Lífeyrissjóðs bankamanna er að tryggja framtíð sjóðfélaga sinna og greiða þeim eftirlaun sem hafa öðlast til þess réttindi.
Með Samþykktum sem tóku gildi 1. janúar 1998 skiptist Lífeyrissjóður bankamanna í tvær sjálfstæðar deildir, Hlutfallsdeild fyrir þá sem hófu störf fyrir 1. janúar 1998 og Stigadeild fyrir þá sem hófu störf eftir 1. janúar 1998 og þá sem við breytinguna kusu að færa áunnin réttindi sín, öll eða að hluta, í Stigadeildina. Nafni Stigadeildar var breytt í ársbyrjun 2008 og heitir hún nú Aldursdeild.
Réttur til eftirlauna er mismunandi eftir deildum. Í gluggum merktum Eftirlaun, Örorkulífeyrir, Makalífeyrir og Barnalífeyrir, verða helstu atriði í hvorri deild fyrir sig tíunduð, en nánar er hægt að lesa um iðgjöld og réttindi í Samþykktum sjóðsins hér á vefnum og fjallar 2. kafli um Hlutfallsdeild en 3. kafli um Stigadeild/Aldursdeild.

Rafræn umsókn um eftirlaun

Hlutfallsdeild

Í Hlutfallsdeild er starsfmanni heimilt að láta af störfum með rétti til eftirlauna 65 ára. Með því að starfa áfram og greiða iðgjöld til sjóðsins, er hægt að vinna sér inn viðbótarréttindi, hafi hámarksréttindum ekki verið náð. Sá sem náð hefur 60 ára aldri og hefur samanlagðan aldur og starfsaldur 95 ár, getur hætt störfum með rétti til eftirlauna. Einnig er sjóðfélaga sem orðinn er 60 ára heimilt að láta af störfum og hefja töku eftirlauna, þótt hann nái ekki 95 ára reglu, en þá með skerðingu eftirlaunanna, 0,5% fyrir hvern mánuð sem vantar á að 65 ára aldri sé náð.
Upphæð eftirlauna er hundraðshluti af launum fyrir fullt starf í stöðu þeirri sem sjóðfélaginn gegndi síðustu fimm árin og skal endurmeta laun fyrstu fjögurra áranna til verðlags á því síðasta með vísitölu neysluverðs. Eftirlaunin nema 1,82% fyrir hvert iðgjaldagreiðsluár í fullu starfi, en hlutfallslega lægri fyrir lægra starfshlutfall, þar til 72,8% eftirlaunahlutfalli er náð.

Umsókn um lífeyri - Hlutfallsdeild

Aldursdeild

Í Aldursdeild er starfsmanni heimilt að láta af störfum með rétti til eftirlauna 67 ára gamall. Heimilt er að láta af störfum 65 ára og hefja töku lífeyris, en þá skerðast eftirlaunin um 0,6% fyrir hvern mánuð sem vantar á að 67 ára aldri sé náð. Í Aldursdeild gildir engin 95 ára regla eins og í Hlutfallsdeildinni. Sjóðfélagi sem orðinn er 67 ára og heldur áfram störfum, hækkar lífeyrinn um 0,6% fyrir hvern mánuð sem hann vinnur umfram 67 ára aldur.

Umsókn um lífeyri - Aldursdeild